Stórsigur hjá stelpunum

Kvennalið Selfoss hóf leik á Íslandsmótinu í knattspyrnu í kvöld með stórsigri á Hetti á heimavelli, 8-0.

Leikurinn var ekki nema 20 sekúndna gamall þegar Guðmunda Brynja Óladóttir hafði komið Selfyssingum yfir. Líklega voru ekki nema þrír áhorfendur mættir til að verða vitni að því en þegar upp var staðið voru áhorfendurnir hátt í 200. Selfyssingar höfðu töglin og hagldirnar í fyrri hálfleik en ekkert upphlaupa Hattar endaði með markskoti.

Dagný Hróbjartsdóttir kom Selfoss í 2-0 með góðu skallamarki. Þá tóku þær systur Anna María og Katrín Ýr Friðgeirsdætur við og skoruðu sex síðustu mörk Selfoss í leiknum. Staðan var 4-0 í hálfleik. Katrín skoraði fjögur mörk og Anna María tvö en yfirburðir Selfoss héldust út leikinn.

Fyrri greinAnnað tap hjá KFR
Næsta greinÖruggt hjá Árborg