Mílan vann öruggan sigur á Þrótti í 1. deild karla í handbolta í Laugardalshöllinni í kvöld, 17-26, en liðið er nú taplaust í síðustu tveimur leikjum eftir langa bið eftir stigum.
Mílan var skrefinu á undan í fyrri hálfleik en munurinn var aldrei mikill og Þróttur jafnaði fyrir leikhlé, 13-13. Lið Mílan var hins vegar mun öflugra í síðari hálfleik og náði fljótlega þriggja marka forskoti. Þeir grænu létu kné fylgja kviði og þegar tíu mínútur voru eftir var munurinn orðinn sex mörk, 16-22. Að lokum skildu níu mörk liðin að en Birgir Örn Harðarson, forseti Mílan, kórónaði 17-26 sigur með glæsilegu marki úr vítaskoti í leikslok. Þróttur náði aðeins að skora fjögur mörk í síðari hálfleik en áætlun þeirra um að taka stórskytturnar Örn Þrastarson og Atla Kristinsson úr umferða allan leikinn opnaði leiðir fyrir aðrar stórskyttur, sem Mílanliðið virðist eiga á lager.
Rúnar Hjálmarsson og Ársæll Einar Ársælsson voru markahæstir hjá Mílan með 6 mörk, Eyvindur Hrannar Gunnarsson 4, Árni Felix Gíslason 3, Atli Kristinsson og Örn Þrastarson 2 og þeir Óskar Kúld, Magnús Már Magnússon og Birgir Örn Harðarson skoruðu allir 1 mark.
Stefán Ármann Þórðarson varði 11/1 skot í marki Mílan og var með 42% markvörslu og Sverrir Andrésson varði 6/1 skot og var með 75% markvörslu.
Mílan hefur nú 8 stig í 7. sæti deildarinnar og mætir næst Víkingi á heimavelli þann 25. febrúar.