Stokkseyri vann stórsigur á Snæfelli í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld, þegar liðin mættust í rokinu á Stokkseyrarvelli.
Leikurinn var einstefna í fyrri hálfleik þar sem Stokkseyringar skoruðu fimm mörk. Jón Jökull Þráinsson braut ísinn á 14. mínútu og fljótlega á eftir fylgdi mark frá Þórhalli Aroni Mássyni. Hjalti Jóhannesson og markvörðurinn Hlynur Kárason bættu svo við mörkum úr vítaspyrnum með tveggja mínútna millibili áður en Andri Einarsson skoraði fimmta markið.
Seinni hálfleikurinn var rólegri en Lárus Hrafn Hallsson skoraði tvö mörk á fyrstu níu mínútunum og þar við sat. Lokatölur 7-0.
Stokkseyri er í 5. sæti B-riðils 4. deildarinnar með 7 stig en Snæfell er á botninum með 1 stig.