Stokkseyringar unnu öruggan heimasigur á Mídasi í lokaumferð B-riðils 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld.
Heimamenn léku á alls oddi í fyrri hálfleik og réðu lögum og lofum á vellinum. Örvar Hugason kom Stokkseyringum yfir strax á 3. mínútu og tíu mínútum síðar hafði Barði Páll Böðvarsson bætt öðru marki við.
Stokkseyringar fengu fín færi til að bæta við mörkum þegar leið á fyrri hálfleikinn og á 22. mínútu skoraði Alexander Kristmannsson þriðja mark heimamanna. Gestirnir áttu líka sínar sóknir en vörn Stokkseyringa hélt vel og Eyþór Gunnarsson stóð líka fyrir sínu í markinu en hann varði meðal annars vítaspyrnu í stöðunni 3-0.
Barði Páll var ekki hættur markaskorun því hann bætti tveimur mörkum við á lokamínútum fyrri hálfleiks og staðan var 5-0 í hálfleik.
Síðari hálfleikur var mun tíðindaminni en sá fyrri. Bæði lið fengu ágæt færi en mörkin urðu ekki fleiri. Á 87. mínútu fékk síðan Einar Ingi Jónsson beint rautt spjald fyrir að brjóta af sér sem aftasti varnarmaður þannig að Stokkseyringar luku leik manni færri.
Stokkseyri lauk keppni í 6. sæti B-riðils með tólf stig en liðið vann þrjá leiki í sumar, gerði þrjú jafntefli og tapaði átta leikjum og bætti árangur sinn mjög mikið á milli ára.