„Þetta er það sem við erum búnir að stefna að í mörg ár og þetta er stórt skref fyrir klúbbinn en úrslitakeppnin getur verið mikið lottó,“ segir Adólf Bragason, þjálfari Árborgar.
Árborg tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum 3. deildar karla með 4-0 sigri á KFR í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn sem Árborg nær þessum áfanga eftir tíu ár í 3. deildinni.
„Við erum búnir að eiga gott mót hingað til og hópurinn hefur verið breiðari hjá okkur núna miðað við fyrri ár. Við höfum verið að klára leiki sem við hefðum kannski verið að ströggla með á síðustu árum. Þetta er búið að vera stöngin inn hjá okkur í sumar en menn hafa unnið vel fyrir því og það verður spennandi að fara inn í 8-liða úrslitin. Þar getur allt gerst,“ segir Adólf.
„Við eigum tvo leiki eftir í deildinni og erum bara að njóta þess að spila fótbolta. Við klárum riðilinn fyrst áður en við förum að spá í möguleikum okkar í úrslitakeppninni.“