Selfoss vann gríðarlega mikilvægan 2-1 sigur á Víkingi Ó í uppgjöri toppliðanna í 2. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og Víkingar voru nær því að skora á undan. Það voru hins vegar Selfyssingar sem nýttu sín færi undir lok fyrri hálfleiksins. Gonzalo Zamorano kom þeim yfir með marki af vítapunktinum eftir að brotið var á Aroni Vokes og á lokamínútunni lagði Gonzi upp fyrir Breka Baxter sem skoraði af öryggi úr teignum.
Staðan var 2-0 í hálfleik en þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum minnkaði Víkingur muninn í 2-1. Selfyssingar voru nær því að bæta við marki í kjölfarið en á síðustu tíu mínútunum sóttu Víkingar stíft án þess þó að fá nein dauðafæri.
Selfyssingar eru komnir í mjög álitlega stöðu í toppsæti deildarinnar með 35 stig og níu stiga forskot á liðið í 3. sæti sem er Völsungur. Víkingur Ó er í 2. sæti með 26 stig. Sjö umferðir eru eftir af deildarkeppninni.