Selfyssingar töpuðu stórt þegar þeir heimsóttu Hauka í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur á Ásvöllum urðu 31-22.
Haukar höfðu frumkvæðið frá fyrstu mínútu en leikurinn var jafn framan af. Þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik tóku Haukarnir sprett og leiddu með sex mörkum í hálfleik, 16-10.
Selfoss átti erfitt uppdráttar í seinni hálfleik og náði aldrei að ógna Haukunum. Munurinn var minnstur þrjú mörk þegar rúmar tuttugu mínútur voru eftir, en þá stigu Haukar aftur á bensíngjöfina og lönduðu öruggum sigri.
Ragnar Jóhannsson var markahæstur Selfyssinga með 8/2 mörk, Einar Sverrisson skoraði 4/3, Gunnar Flosi Grétarsson og Ísak Gústafsson 2, Hergeir Grímsson 2/1, og þeir Karolis Stropus, Elvar Elí Hallgrímsson, Richard Sæþór Sigurðsson og Alexander Egan skoruðu allir 1 mark.
Vilius Rasimas varði 7/1 skot í marki Selfoss og var með 21% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 1 skot og var með 14% markvörslu.