Stórt tap á heimavelli

Rakel Guðjónsdóttir fær óblíðar móttökur hjá vörn ÍR. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss tapaði stórt þegar ÍR kom í heimsókn í Hleðsluhöllina í 1. deild kvenna í handbolta í dag.

Leikurinn var jafn á upphafsmínútunum en í stöðunni 5-5 fór allt í handaskolum hjá Selfyssingum sem skoruðu aðeins eitt mark gegn ellefu mörkum ÍR og staðan var 6-16 í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn varð aldrei spennandi. Selfyssingum, sem tefla fram mjög vængbrotnu liði þessa dagana, gekk illa í sókninni og lokatölur urðu 16-31.

Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoraði 8/4 mörk fyrir Selfoss, Agnes Sigurðardóttir 5 og þær Rakel Guðjónsdóttir, Sólveig Ása Brynjarsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 2 skot í marki Selfoss og var með 13% markvörslu og Lena Ósk Jónsdóttir varði sömuleiðis 2 skot og var með 10% markvörslu.

Selfoss er í botnsæti deildarinnar með 2 stig en ÍR er í 5. sæti með 8 stig.

Fyrri grein„Viðtökurnar hafa verið gríðarlega góðar“
Næsta greinEnn einn 3-0 sigurinn