Selfoss tapaði stórt þegar liðið sótti topplið Vals heim að Hlíðarenda í Olísdeild kvenna í handbolta í gær. Lokatölur urðu 28-13.
Staðan var 5-4 þegar þrettán mínútur voru liðnar af leiknum en þá náði Valur 6-1 áhlaupi og breytti stöðunni í 11-6. Staðan var 16-8 í leikhléi.
Selfoss skoraði aðeins fimm mörk í seinni hálfleiknum og átti aldrei möguleika á að ná Valsliðinu. Staðan var 19-11 um miðjan seinni hálfleikinn en Selfyssingum tókst ekki að skora síðustu sjö mínútur leiksins og á meðan bætti Valur við forskotið.
Ída Bjarklind Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 4 mörk, Hulda Dís Þrastardóttir, Rakel Guðjónsdóttir og Harpa Sólveig Brynjarsdóttir skoruðu allar 2 mörk og þær Agnes Sigurðardóttir, Arna Kristín Einarsdóttir og Elín Krista Sigurðardóttir skoruðu allar 1 mark.
Viviann Petersen varði 11 skot í marki Selfoss og var með 28% markvörslu.
Selfoss er áfram í 6. sæti Olísdeildarinnar með 7 stig.