Hamar/Þór fékk Hauka í heimsókn í vatnshöllina í Þorlákshöfn í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld. Haukar unnu stórsigur, 64-100.
Fyrsti leikhluti var jafn en undir lok hans skoruðu Haukar tíu stig í röð og staðan var 18-28 þegar 2. leikhluti hófst. Þar byrjuðu þær sunnlensku illa og Haukar náðu góðri forystu á skömmum tíma, 27-51. Staðan var 35-57 í hálfleik.
Haukar gerðu endanlega út um leikinn með fimmtán stiga áhlaupi í upphafi 3. leikhluta. Hamar/Þór lagði þó ekki árar í bát og klóraði í bakkann á lokakaflanum en munurinn var allt of mikill og öruggum sigri Hauka var aldrei ógnað.
Abby Beeman var stiga- og framlagshæst hjá Hamri/Þór með 12 stig og 9 stoðsendingar, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir skoraði 9 stig og tók 7 fráköst og Hana Ivanusa og Anna Soffía Lárusdóttir skoruðu báðar 8 stig og Hana tók 10 fráköst að auki.
Eftir tíu umferðir er Hamar/Þór á botninum með 6 stig, eins og þrjú önnur lið, en Haukar eru í toppsætinu með 16 stig.
Hamar/Þór-Haukar 64-100 (18-28, 17-29, 10-27, 19-16)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 12/4 fráköst/9 stoðsendingar, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 9/7 fráköst, Hana Ivanusa 8/10 fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir 8, Gígja Rut Gautadóttir 7, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 5, Fanney Ragnarsdóttir 4, Matilda Sóldís Svan 4, Þóra Auðunsdóttir 4, Vilborg Óttarsdóttir 3.