Stórt tap gegn toppliðinu

Hulda Ósk Bergsteinsdóttir skoraði 9 stig og tók 7 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór fékk Hauka í heimsókn í vatnshöllina í Þorlákshöfn í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld. Haukar unnu stórsigur, 64-100.

Fyrsti leikhluti var jafn en undir lok hans skoruðu Haukar tíu stig í röð og staðan var 18-28 þegar 2. leikhluti hófst. Þar byrjuðu þær sunnlensku illa og Haukar náðu góðri forystu á skömmum tíma, 27-51. Staðan var 35-57 í hálfleik.

Haukar gerðu endanlega út um leikinn með fimmtán stiga áhlaupi í upphafi 3. leikhluta. Hamar/Þór lagði þó ekki árar í bát og klóraði í bakkann á lokakaflanum en munurinn var allt of mikill og öruggum sigri Hauka var aldrei ógnað.

Abby Beeman var stiga- og framlagshæst hjá Hamri/Þór með 12 stig og 9 stoðsendingar, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir skoraði 9 stig og tók 7 fráköst og Hana Ivanusa og Anna Soffía Lárusdóttir skoruðu báðar 8 stig og Hana tók 10 fráköst að auki.

Eftir tíu umferðir er Hamar/Þór á botninum með 6 stig, eins og þrjú önnur lið, en Haukar eru í toppsætinu með 16 stig.

Hamar/Þór-Haukar 64-100 (18-28, 17-29, 10-27, 19-16)
Tölfræði Hamars/Þórs: Abby Beeman 12/4 fráköst/9 stoðsendingar, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 9/7 fráköst, Hana Ivanusa 8/10 fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir 8, Gígja Rut Gautadóttir 7, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 5, Fanney Ragnarsdóttir 4, Matilda Sóldís Svan 4, Þóra Auðunsdóttir 4, Vilborg Óttarsdóttir 3.

Fyrri greinHeimafólk man vart eftir öðru eins
Næsta greinSíðasti upplesturinn á þessari aðventu