Hamar tapaði illa fyrir Fjölni á útivelli þegar keppni hófst í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur urðu 101-80.
Fjölnir skoraði fyrstu sex stigin en Hamar svaraði með níu stigum í röð. Það var í eina skiptið sem Hamar hafði forystuna í leiknum því heimamenn tóku leikinn yfir eftir það. Staðan var 35-20 að loknum 1. leikhluta og 55-41 í hálfleik.
Forskot Fjölnismanna varð mest 28 stig í 3. leikhluta, 79-51, en Hamar klóraði lítillega í bakkann í síðasta fjórðungnum.
Tölfræði Hamars: Samuel Prescott Jr. 26 stig/9 fráköst, Oddur Ólafsson 23 stig/6 fráköst/5 stoðsendingar, Örn Sigurðarson 12 stig/9 fráköst, Þorsteinn Gunnlaugsson 9 stig/12 fráköst, Stefán Halldórsson 6 stig, Sigurður Orri Hafþórsson 2 stig, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 2 stig.