Viðar Örn Kjartansson heldur uppteknum hætti í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en hann skoraði tvö mörk í dag og lagði upp eitt þegar Vålerenga sigraði Aalesund 3-0 á heimavelli.
Þar með hefur Viðar skorað þrettán mörk í tólf deildarleikjum og er lang markahæstur í norsku deildinni. Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Viðars, staðfestir í samtali við NRK að lið í ensku úrvalsdeildinni hafi áhuga á Viðari. Auk þess hafa útsendarar liða frá Þýskalandi og Hollandi fylgst náið með Viðari að undanförnu. ÓLafur verður í Englandi í vikunni og fundar þar með félögum sem hafa lýst áhuga á því að fá Viðar í sínar raðir.
Viðar kom Vålerenga yfir á 18. mínútu og bætti öðru marki við á 32. mínútu. Hann lagði svo upp þriðja og síðasta markið fyrir Daniel Holm undir lok fyrri hálfleiks og lokatölur urðu 3-0.
Guðmundur Þórarinsson og Jón Daði Böðvarsson áttust við í dag þegar Sarpsborg 08 og Viking mættust í Sarpsborg. Fyrri hálfleikur var markalaus en Jón Daði kom Víkingunum yfir í upphafi síðari hálfleiks. Sarpsborg jafnaði skömmu síðar og lokatölur urðu 1-1. Jóni Daða var skipt af velli á 78. mínútu og Guðmundi sömuleiðis á 85. mínútu.