Það var Selfyssingaslagur í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag þegar Guðmundur Þórarinsson og Viðar Örn Kjartansson mættust í leik Sarpsborg 08 og Vålerenga.
Sarpsborgarliðið var miklu sterkara og vann sanngjarnan 3-0 sigur. Guðmundur lykilmaður í sóknarleik liðsins en honum var skipt af velli á 70. mínútu. Viðar lék allan leikinn og fékk besta færi Vålerenga undir lok fyrri hálfleiks þegar hann mokaði boltanum hátt yfir með viðstöðulausu skoti úr teignum.
Jón Daði Böðvarsson spilaði allan leikinn þegar Viking mætti Start í gær á útivelli. Jón Daði lagði upp fyrra mark liðsins í 2-0 sigri og hefur nú skorað þrjú mörk og lagt upp tvö í fyrstu fimm umferðum deildarinnar.
Viking er í 3. sæti deildarinnar með 11 stig og Sarpsborg fór uppfyrir Vålerenga með sigrinum í dag. Sarpsborg er í 6. sæti með 8 stig en Viðar og Vålerenga í 7. sæti með 7 stig þegar fimm umferðum er lokið.