Keppni í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hófst um helgina. Jón Daði Böðvarsson var hetja Viking en hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-2 jafntefli við Rosenborg.
Liðin mættust á Lerkendal stadion í Þrándheimi í gær og hóf Jón Daði leikinn á varamannabekknum. Hann kom inná á 74. mínútu en þá var staðan 2-0 fyrir Rosenborg. Okkar maður gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö glæsileg mörk á þriggja mínútna kafla í blálokin og tryggði Viking eitt stig.
Guðmundur Þórarinsson var í byrjunarliði Sarpsborg 08 í dag þegar liðið tók á móti Brann á Sarpsborg stadion. Guðmundur var á sínum stað á miðjunni og átti góðan leik í öruggum 3-0 sigri heimamanna.
Viðar Örn Kjartansson spilaði einnig 90 mínútur í sínum fyrsta deildarleik fyrir Vålerenga á föstudagskvöld þegar liðið mætti Molde á Aker stadion í Molde í opnunarleik norsku deildarinnar. Molde sigraði 2-0.