Viðar Örn Kjartansson skoraði tvö mörk fyrir Vålerenga í 3-1 sigri liðsins á Bodø/Glimt í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Viðar kom Vålerenga yfir með frábæru marki eftir viðstöðulaust skot strax á 7. mínútu leiksins en staðan á Ulleval vellinum var 1-1 í hálfleik. Vålerenga komst í 2-1 á 79. mínútu og Viðar kórónaði 3-1 sigur liðsins með marki af vítapunktinum á 89. mínútu en varnarmaður hafði þá handleikið boltann þegar Viðar reyndi að fara framhjá honum. Skömmu áður hafði Viðar átt stangarskot.
Guðmundur Þórarinsson lék 90 mínútur fyrir Sarpsborg þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Sogndal á Fosshaugane vellinum í Sogndal í dag.
Jón Daði Böðvarsson var áfram á varamannabekknum þegar Viking tók á móti Strømsgodset á Viking stadion í Stavangri á föstudagskvöld. Jón Daði kom inná á 75. mínútu og hleypti hann talsverðu lífi í sóknarleik liðsins. Þrátt fyrir það tókst Víkingunum ekki að skora og leiknum lauk með 0-0 jafntefli.
Fimm leikmenn eru nú markahæstir í norsku deildinni með tvö mörk og Selfyssingarnir Jón Daði og Viðar þar á meðal.