Sextándu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu lauk í kvöld þegar Guðmundur Þórarinsson og félagar í Sarpsborg 08 sigruðu Álasund á heimavelli, 3-2.
Guðmundur spilaði allan leikinn á miðjunni fyrir Sarpsborg.
Í gær gerðu Viking og Lilleström 0-0 jafntefli í Stavangri. Jón Daði Böðvarsson var í byrjunarliði Viking en var skipt af velli á 83. mínútu.
Á sunnudag heimsótti Vålerenga Strömsgotset og þar fór Oslóarliðið með sigur af hólmi, 0-2. Viðar Örn Kjartansson lék allan leikinn og hann skoraði annað mark Vålerenga á nítjándu mínútu leiksins.