Viðar Örn Kjartansson skoraði eitt af mörkum Vålerenga sem lagði Sandnes Ulf 3-0 í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Viðar kom sínum mönnum í 1-0 í uppbótartíma í fyrri hálfleik. Hann fékk einnig algjört dauðafæri á upphafsmínútum leiksins þegar hann slapp einn innfyrir en Hannes Þór Halldórsson varði vel frá honum í marki Sandnes Ulf. Viðar lagði síðan upp þriðja mark Vålerenga og átti heilt yfir fínan leik.
Jón Daði Böðvarsson var loksins í byrjunarliðinu í fremstu víglínu hjá Viking sem tók á móti Haugesund. Jón Daði spilaði allan leikinn og átti sín tækifæri en þrátt fyrir að honum hafi ekki tekist að skora átti hann mjög fínan leik. Viking sigraði 2-0 og sáu þeir Sverrir Ingason og Steinþór Þorsteinsson um markaskorunina.
Guðmundur Þórarinsson lék allan tímann fyrir Sarpsborg 08 sem fékk 5-1 skell á útivelli gegn Molde.
Jón Daði og Víkingarnir eru nú í 3. sæti deildarinnar með 8 stig, Vålerenga er í 4. sæti með 7 stig og Sarpsborg er í 10. sæti með 5 stig.
Viðar Örn er nú einn á toppnum á lista yfir markahæstu leikmenn deildarinnar en hann hefur skorað fjögur mörk í fjórum leikjum.