„Þetta var hörkuleikur, við byrjuðum vel og náðum að halda því. Varnarleikurinn og markvarslan var góð og við vorum að spila fínt í sókninni,“ sagði Gunnar Gunnarsson, þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta eftir 24-20 sigur á Fjölni í kvöld.
Með sigrinum tryggðu Selfyssingar sér oddaleik sem fram fer í Grafarvogi á miðvikudag. Sigurliðið úr þeim leik mætir Víkingi í næstu umferð.
„Við vorum komnir með bakið upp við vegg og strákarnir voru að berjast fyrir lífinu, sem við urðum auðvitað að gera,“ sagði Gunnar en Selfoss lagði grunninn að sigrinum með frábærum varnarleik.
„Við spiluðum sömu vörn í fyrsta leiknum og okkur fannst hún virka þá líka. vVið vorum bara svolítið seinheppnir, vorum að missa frá okkur fráköst og fleira, en hún var alveg rosalega fín í kvöld. Annars var þetta bara eins og leikirnir eru búnir að vera hjá þessum liðum í vetur. Maður var ekkert rólegur í seinni hálfleik því þessir leikir eru fljótir að breytast. Fjölnir er með hörkuskemmtilegt lið og í raun eru þessi tvö lið mjög svipuð með blöndu af ungum og efnilegum og svo eldri leikmönnum,“ sagði Gunnar og bætti við að oddaleikurinn leggðist vel í sig.
„Við þurfum að breyta okkur verulega í Grafarvoginum því við erum búnir að tapa tvisvar þar í vetur. Ég hef reyndar minnstu áhyggjurnar af hugarfarinu því menn vita að ef þeir leggja sig ekki fram þá er tímabilið bara búið. Við erum svo heppnir að við erum með leikmenn til að skipta og ef strákarnir leggja sig ekki fram þá koma þeir bara útaf. Það er frábært að komast í þennan oddaleik því það hefur enginn áhuga á því að fara í sumarfrí núna.“