„Við erum búin að snyrta allt íþróttasvæðið, setja gervigras á opin svæði og gera íþróttasvæðið tilbúið fyrir Unglingalandsmótið. Starfsfólk og forsvarsfólk sveitarfélagsins hefur staðið sig afar vel og vill alltaf gera betur,“ segir Ásgeir Hilmarsson hjá PRO-görðum.
Á milli 5-6 starfsmenn hafa síðustu daga unnið hörðum höndum að gerð vallar fyrir strandblak og strandhandbolta aftan við Selfosshöllina á íþróttavellinum. Það svæði er 1.650 fermetrar og rúmar þrjá velli. Allt svæðið er umkringt 300 vörubrettum og hafa tugir vörubílar flutt um 500 rúmmetra af sandi á svæðið frá Eyrarbakka.
Ásgeir var í vikunni á fullu að slétta úr sandinum ásamt þeim Evu Björk Kristjánsdóttur skrúðgarðyrkjufræðingi, konu sinni, og Nökkva Þór, syni þeirra. „Eftir helgina tyrfum við hliðarnar og setjum svo upp mörkin,“ segir Ásgeir.
Skráningu lýkur um helgina
Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ stendur yfir og þurfa skráningar að berast fyrir miðnætti á sunnudag. Eins og undanfarin ár þá lætur HSK alla keppendur af sambandssvæðinu hafa bláan jakka frá Jako sem merktur er HSK og Arionbanka en afhending á jökkunum fer fram í anddyri FSu á Selfossi þriðjudaginn 29. júlí á milli 17:00 og 19:00.