„Að sjálfsögðu er ég ánægður, við erum komin á blað og strax búin að ná einu af markmiðum okkar í vetur sem var að vera ekki stigalaus í vor.“
Þetta sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari kvennaliðs Selfoss í handbolta, eftir stórsigur liðsins á Aftureldingu í dag, 26-16.
„Vissulega vorum við heppin að mæta öðrum nýliðum í fyrsta leik og það á heimavelli. Mér fannst þetta jafnt í fyrri hálfleik og bæði lið að standa sig vel en svo náðum við að spyrna aðeins í í byrjun seinni hálfleiks, loka vörninni og skora góð mörk. Þegar bilið jókst þá fannst mér andstæðingurinn gefast full snemma upp en það var gott fyrir okkur.“
Þetta er í fyrsta skipti í tuttugu ár sem Selfoss teflir fram kvennaliði í efstu deild og Sebastian segir að það sé erfiður vetur framundan.
„Þetta er risastökk uppávið fyrir liðið og þó að við séum með betri mannskap en í utandeildinni í fyrra þá eru þetta allt ungar stelpur. Þetta verður bara rosalega gaman, við vitum alveg hvað bíður okkar þegar við mætum betri liðunum og við erum tilbúnar. Við erum með aðgerðaráætlun þegar við fáum skelli en okkar meginmarkmið er að hafa gaman í vetur. Mitt markmið sem þjálfari er að allir leikmenn liðsins og liðið sjálft sé betra í vor en það var í haust. Ef það tekst, með stig á töflunni, þá erum við búin að ná fyrsta áfanga í uppbyggingarstarfinu,“ sagði Sebastian að lokum.