Síðastliðinn laugardag voru afhjúpaðar stórar ljósmyndir af sigursælum liðum knattspyrnudeildar Selfoss á stúkuveggnum á Selfossvelli.
Það er sögu og minjanefnd knattspyrnudeildarinnar sem stóð fyrir uppsetningu myndanna. Nefndin hefur unnið öflugt starf í gegnum tíðina við að varðveita sögu knattspyrnunnnar á Selfossi og gaf meðal annars út veglegt afmælisrit á 50 ára afmæli deildarinnar.
Á myndunum á stúkunni má meðal annars sjá myndir af meistaraliði 3. deildar karla 1966, Íslandsmeisturum 2. flokks karla 1967, Íslandsmeisturum 3. flokks kvenna 2010 og bikarmeisturum kvenna 2019.
Eftir að myndirnar höfðu verið afhjúpaðar voru málin rædd yfir kaffi og pönnsum og þar tóku ýmsir til máls og sögur frá liðinni tíð voru rifjaðar upp.