Stúkan skreytt með sögulegum ljósmyndum

Fimm Íslandsmeistarar í 2. flokki karla 1967 voru viðstaddir athöfnina. (F.v.) Gunnar Guðmundsson, Þorvarður Hjaltason, Guðjón Skúlason, Jakob Gunnarsson og Tryggvi Gunnarsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Síðastliðinn laugardag voru afhjúpaðar stórar ljósmyndir af sigursælum liðum knattspyrnudeildar Selfoss á stúkuveggnum á Selfossvelli.

Það er sögu og minjanefnd knattspyrnudeildarinnar sem stóð fyrir uppsetningu myndanna. Nefndin hefur unnið öflugt starf í gegnum tíðina við að varðveita sögu knattspyrnunnnar á Selfossi og gaf meðal annars út veglegt afmælisrit á 50 ára afmæli deildarinnar.

Á myndunum á stúkunni má meðal annars sjá myndir af meistaraliði 3. deildar karla 1966, Íslandsmeisturum 2. flokks karla 1967, Íslandsmeisturum 3. flokks kvenna 2010 og bikarmeisturum kvenna 2019.

Eftir að myndirnar höfðu verið afhjúpaðar voru málin rædd yfir kaffi og pönnsum og þar tóku ýmsir til máls og sögur frá liðinni tíð voru rifjaðar upp.

(F.v.) Ingþór Jóhann Guðmundsson, Sævar Þór Gíslason og Jón Steindór Sveinsson voru allir í liði Selfoss sem tryggði sér sæti í efstu deild í fyrsta skipti árið 2009. Þremenningarnir eru allir stjórnarmenn í knattspyrnudeildinni í dag en Jón Steindór er formaður deildarinnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Myndirnar eru stórar og setja skemmtilegan svip á vallarsvæðið. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinMikilvægt að allir hafi sömu tækifæri á vinnumarkaði
Næsta grein„Verð að hrósa mínu liði“