Þrír íþróttamenn hlutu styrk úr íþrótta- og afrekssjóði Rangárþings eystra þegar úthlutað var úr honum í fyrsta skipti á dögunum.
Það voru þau Birta Sigurborg Úlfarsdóttir fyrir frjálsar íþróttir, Þorsteinn Ragnar Guðnason fyrir taekwondo og Þórdís Ósk Ólafsdóttir fyrir knattspyrnu. Þau eru öll fædd 2003 og öll búsett á Hvolsvelli.
Birta Sigurborg, hefur æft frjálsar íþróttir að miklum krafti síðastliðin 5 ár. Hún þykir mjög efnileg frjálsíþróttakona og er komin í úrvalshóp Frjálsíþróttasambands Íslands fyrir 15-22 ára. Hún hefur verið að sækja og stunda æfingar á Selfossi allt að 5 sinnum í viku í allan vetur auk þess sem hún æfir á Hvolsvelli. Íþrótta og afrekssjóður samþykkti að styrkja hana um 40.000 krónur og árskort i sund og líkamsrækt á Hvolsvelli.
Þorsteinn Ragnar hefur verið að æfa og keppa í taekwondo formum í nokkur ár. Hann hefur náð góðum árangri, æfir og keppir með landsliði Íslands en jafnframt því keppir hann á öllum þeim mótum sem í boði eru innanlands. Þorsteinn er duglegur að sækja æfingabúðir hvort heldur sem er innanlands eða erlendis. Íþrótta og afrekssjóður samþykkti að styrkja hann um 30.000 krónur og árskort i sund og líkamsrækt á Hvolsvelli.
Þórdís Ósk hefur stundað knattspyrnu frá því hún var 6 ára gömul. Hún er mjög áhugasöm og sinnir sinni íþrótt mjög vel. Þegar samstarfi KFR og ÍBV lauk fór hún að stunda æfingar og keppni með Selfossi. Hún æfir þar 4-5 sinnum í viku með 3. flokki auk þess sem hún keppir reglulega með 2. flokki. Íþrótta og afrekssjóður samþykktir að styrkja hana um 20.000 krónur og árskort í sund og líkamsrækt á Hvolsvelli.
Íþrótta- og afrekssjóður Rangárþings eystra var stofnuður fyrir um ári síðan. Sjóðurinn hefur það markmið að veita einstökum íþrótta- eða afreksmönnum, sem keppa fyrir hönd íþróttafélags í Rangárþingi eystra, viðurkenningu og fjárstuðning og auðvelda þeim æfingar og og þátttöku í mikilvægum keppnum.