Karl Larsen, liðsstjóri Selfossliðsins, var ánægður með sigurinn gegn Grindavík og sagði að þær áherslubreytingar sem hann gerði fyrir leik hafi skilað sér fullkomlega.
„Við litum mjög vel út í dag og það er alveg óhætt að segja að liðið hafi verið undir miklum áhrifum frá mér,“ sagði Karl sem vann sæti í liðsstjórninni á uppboði hjá knattspyrnudeildinni fyrir tímabilið. Karl reiddi fram litlar 40 þúsund krónur fyrir að fá að sitja við hliðina á Guðmundi Benediktssyni í einn leik og það virtist skila sér í dag.
„Já, við Gummi náðum vel saman og ég kom mínum áherslum til skila til hans. Það var lykilatriði að koma Jóni Daða inn á miðjuna og það skilaði sér í blússandi sóknarleik. Það kom aldrei til greina að lúta í gras hérna í dag, það er næsta víst,“ sagði Karl. „Menn þorðu ekki annað en að gefa sig alla í leikinn því kallinn var grimmur að hóta skiptingum þegar menn voru ekki að standa sig. Enda fóru mörkin að detta inn eftir það.“
Selfyssingar spiluðu einn sinn besta leik í sumar í dag og Karl vill meina að menn hafi spilað meira með hjartanu heldur en oft áður. „Svo spillti ekki fyrir að Jón Guðbrands var í leikbanni. Það var greinilegt að það styrkti liðið að hann var ekki með,“ sagði Karl, alvarlegur að lokum.