Styrmir Dan Steinunnarson, HSK, sigraði í hástökki 15 ára pilta á Unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki í dag og bætti eigið Íslandsmet um 2 sentimetra.
Styrmir stökk 1,96 m, sem er þriðji besti árangur Íslendings á árinu í hástökki utanhúss. Afrekið er ekki minna í ljósi þess að Styrmir er 1,75 m á hæð og er því að stökkva 21 sm yfir eigin hæð.
Keppni á mótinu hófst í dag og lýkur á sunnudag. Sunnlendingar fjölmenna á mótið og hafa notið sér vel þar í dag, bæði innan vallar og utan. „Já, hér er geggjað veður og allir hressir,“ sagði Rúnar Hjálmarsson, frjálsíþróttaþjálfari, í samtali við sunnlenska.is.
Af öðrum úrslitum dagsins má nefna að Sigrún Tinna Björnsdóttir, HSK, sigraði í 60 m hlaupi 11 ára stúlkna á 9,29 sek og Sólveig Þóra Þorsteinsdóttir, HSK, sigraði í 60 m hlaupi 12 ára stúlkna á 9,14 sek. Sólveig Þóra sigraði einnig í langstökki, stökk 4,60 m.
Í langstökki 12 ára pilta vann HSK þrefaldan sigur. Kolbeinn Loftsson sigraði, stökk 4,72 m, Hákon Birkir Grétarsson stökk 4,70 m og Viktor Karl Halldórsson stökk 4,66 m. Viktor Karl gerði sér síðan lítið fyrir og sigraði í 60 m hlaupi á 8,90 sek.