Styrmir Dan rauf tveggja metra múrinn og setti HSK met

Stórmót ÍR í frjálsíþróttum fór fram í Laugardalshöllinni um síðustu helgi. Aðildarfélög HSK áttu fjölda keppenda á mótinu og góður árangur náðist í mörgum greinum. Fjögur HSK met voru sett á mótinu.

Styrmir Dan Steinunnarson úr Þór sigraði í sinni aðalgrein hástökki og skellti sér yfir 2,00m í fyrsta sinn á ferlinum. Með þessu stökki bætti hann sinn persónulega besta árangur og sitt eigið HSK met í flokki 16 – 17 ára um tvo sentimetra. Hann bætti einnig eigið mótsmet um 10 cm.

Hákon Birkir Grétarsson Selfossi heldur áfram að bæta HSK metið í 60 m grindahlaupi í flokki 14 ára. Hann tvíbætti metið á MÍ 11 -14 ára helgina áður. Nú hljóp hann á 9,31 sek og bætti metið um 0,03 sek. Þetta var einnig mótsmet hjá honum í greininni.

Dagur Fannar Einarsson, Selfossi sem keppir í 14 ára flokki bætti einnig vikugamalt met sitt í í 800 m hlaupi, hljóp á 2:19,99 mín. Met hans frá MÍ 11-14 ára var 2:21,69 mín.

Þá setti Sindri Freyr Seim Sigurðsson Heklu sitt fyrsta HSK met á ferlinum, en hann hljóp 60 m. grindahlaup í flokki 13 ára á 9,80 sek., sem jafnframt er mótsmet. Styrmir Dan og Hákon Birkir áttu gamla metið saman, sem var 9,84 sek.

Keppendur af sambandssvæðinu unnu til fjölda verðlauna á mótinu og margir fleiri en HSK methafarnir sem hér eru nefndir voru að bæta sinn árangur.

Árangur allra keppenda má sjá á www.fri.is og þar er sérstaklega merkt við persónuleg met (PB).

Fyrri greinBanaslys í Reynisfjöru
Næsta greinLögregluvakt verður við Reynisfjöru