Keppnisfólk Íþróttafélagsins Suðra fékk magnaðar móttökur í miðbæ Selfoss í kvöld þegar hann kom heim af Heimsleikum Special Olympics sem haldnir voru í Berlín.
Mikill mannfjöldi tók á móti hópnum á Tryggvatorgi og fagnaðarlætin voru mikil, fánar á lofti og húrrahróp. Það var þreyttur en glaður hópur sem kom heim frá Berlín í dag eftir frábæra keppnisferð þar sem allir keppendur Suðra náðu frábærum árangri.
María Sigurjónsdóttir nældi sér í tvenn gullverðlaun og tvenn silfurverðlaun í sínum þyngdarflokki í lyftingum, Katla Sif Ægisdóttir tók gullið í bringusundi, Birgir Örn Viðarsson tók silfrið í sínum riðli í boccia, Telma Þöll Þorbjörnsdóttir vann gullverðlaun í golfi og síðast en alls ekki síst skal nefna Sigurjón Ægi Ólafsson, sem vann hug og hjörtu allra sem á hann horfðu í lyftingum og lenti í 4.-5. sæti í sínum greinum. Myndband af einni af lyftu Ægis má sjá neðst í fréttinni. Þjálfarar hópsins voru Ófeigur Ágúst Leifsson í boccia og Örvar Arnarson í lyftingum.
Svo skemmtilega vildi til að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmálaráðherra, var á Selfossi þegar hópurinn kom heim og tók hann á móti þeim ásamt Fjólu St. Kristinsdóttur bæjarstjóra og Braga Bjarnasyni formanni bæjarráðs. Hópurinn var leystur út með blómum og gjöfum og gleðin skein af hverju andliti.
Iceland's Aegir Olafsson lost power in his foot at a young age.
Today, he got out of his wheelchair to perform a lift at the Special Olympics World Games 🙌 pic.twitter.com/V84k7iQqDZ
— SportsCenter (@SportsCenter) June 23, 2023