Guðmundur Ingi Arnarson og Eðvald Orri Guðmundsson fóru með sigur af hólmi í Blåkläder torfærunni sem haldin var á Hellu í gær. Á fjórða þúsund áhorfenda sótti keppnina sem heppnaðist vel.
Sunnlendingar röðuðu sér í toppsætin í sérútbúna flokknum. Guðmundur Ingi á Ljóninu vann öruggan sigur með 1.796 stig og næstur honum kom Magnús Sigurðsson á Kubbnum með 1.579 stig, rétt á undan Sigurði Elíasi Guðmundssyni sem fékk 1.566 stig í 3. sæti en Elías sýndi frábær tilþrif á Ótemjunni í sinni fyrstu keppni á bílnum. Fjórði varð svo Geir Evert Grímsson á Sleggjunni með 1.385 stig en hörkukeppni var um 4. til 9. sætið þar sem goðsögnin Árni Kópsson endaði með 1.231 stig.
Í götubílaflokknum gerði Eðvald Orri Guðmundsson sér lítið fyrir og sigraði á Pjakknum en þetta er í fyrsta skipti sem hann nær í gullið á Hellu. Orri sigraði nokkuð örugglega með 1.492 stig, Ragnar Skúlason á Kölska fékk 1.220 stig og Haukur Birgisson á Þeytingi 910 stig.
Hér að neðan er myndband sem Jakob Cecil Hafsteinsson tók af helstu tilþrifunum á Hellu í gær.