Skúli Kristjánsson á Simba sigraði í Sindratorfærunni sem fram fór á Hellu í gær. Sunnlendingar komu, sá og sigruðu og röðuðu sér í efstu fjögur sætin, auk þess að fara heim með tilþrifaverðlaunin.
Íslandsmeistarinn Haukur Viðar Einarsson á Heklu leiddi framan af keppni en þegar bilanir fóru að plaga Hekluna komst Skúli komst fljótt upp í fyrsta sætið og hélt því út keppnina. Geir Evert Grímsson á Sleggjunni veitti Skúla harða keppni og átti möguleika á sigrinum allt fram í síðustu braut en varð að gera sér silfrið að góðu eftir að hafa fengið 60 refsistig í mýrinni. Skúli sigraði því að lokum með 51 stigs mun.
Í 3. sæti, átta stigum á eftir Geir Evert, kom svo Ingvar Jóhannesson á Víkingnum en hann keyrði öruggt í gegnum allar brautir sem skilaði honum frábærum árangri. Fyrrum Íslandsmeistarinn Snorri Þór Árnason á Kórdrengnum náði 4. sæti en hann klifraði upp stigatöfluna alla keppnina eftir mistök í fyrstu braut.
Nýliði keppninnar var Andri Már Sveinsson sem skilaði nýsmíðuðum Kúrekanum í 7. sætið í sinni fyrstu keppni og hreppti Andri Már meðal annars tilþrifabikar keppninnar.
Keppnin á Hellu heppnaðist mjög vel en 23 bílar voru skráði til leiks. Torfæran hefur verið haldin á Hellu síðan árið 1973 og hefur því Flugbjörgunarsveitin á Hellu haldið keppni í 50 ár. Um 100 starfsmenn komu að keppninni og tóku vel á móti 5.000 áhorfendum sem bíða líklega allir spenntir eftir næstu keppni á Hellu, Sindratorfærunni 4. maí 2024.