Sunnlendingar misstu af titlunum

Nýir Íslandsmeistarar voru krýndir eftir lokaumferð Íslandsmótsins í torfæru á Blönduósi sl. laugardag.

Selfyssingarnir Jóhann Rúnarsson og Ívar Guðmundsson voru báðir í titilbaráttu fyrir lokamótið en keppinautar þeirra höfðu betur og verða meistarabikararnir því ekki hýstir á Suðurlandi næsta árið.

Róbert Agnarsson náði besta árangri Sunnlendinga á Blönduósi en hann varð í 2. sæti í flokki sérútbúinna bíla. Ólafur Bragi Loftsson sigraði hins vegar með nokkrum yfirburðum og tryggði sér um leið Íslandsmeistaratitilinn.

Benedikt Eiríksson varð sjötti á Tíkinni en Ásgeir Björn Benediktsson varð sjöundi í sinni fyrstu keppni. Ásgeir fékk tilþrifaverðlaunin en hann ók Hlunknum á móti föður sínum, Benedikt Sigfússyni. Benedikt varð áttundi en skiptingin gaf sig í Hlunknum og því gátu þeir feðgar ekki ekið allar brautirnar.

Sama bilun kom upp í Trúðnum hjá Jóhanni Rúnarssyni, snemma í keppninni, og lauk hann því keppni í 9. sæti og varð þriðji á Íslandsmótinu.

Í götubílaflokknum varð Ívar Guðmundsson á Kölska í 3. sæti og varð hann að láta sér lynda annað sætið í Íslandsmótinu en Stefán Bjarnhéðinsson sigraði og varð Íslandsmeistari.

Lokastaðan í Íslandsmótinu:
Sérútbúnir:
1. Ólafur Bragi Jónsson – 75 stig
2. Leó Viðar Björnsson – 53 stig
3. Jóhann Rúnarsson – 45 stig
4. Róbert Agnarsson – 40 stig
5. Benedikt Helgi Sigfússon – 37 stig
6. Daníel Ingimundarson – 36 stig
7. Dagbjartur Jónsson – 26 stig
8. Bjarki Reynisson – 18 stig
9. Garðar Sigurðsson – 18 stig
10. Benedikt Eiríksson – 14 stig
11. Guðlaugur Helgason – 12 stig
12. Sigþór Helgason – 6 stig
13. Ásgeir Björn Benediktsson – 6 stig
14. Kristmundur Dagsson – 2 stig

Götubílar:
1. Stefán Bjarnhéðinsson – 83 stig
2. Ívar Guðmundsson – 67 stig
3. Ingólfur Guðvarðarson – 57 stig
4. Magnús Sigurðsson – 47 stig
5. Steingrímur Bjarnason – 46 stig
6. Sævar Már Gunnarsson – 20 stig

Fyrri greinSkoðar vatnsútflutning frá Þorlákshöfn
Næsta greinHaraldur og Ingunn Harpa stigahæst