Íslandsmót barnaskólasveita í skák fyrir 4.-7. bekk fór fram í Rimaskóla í Reykjavík síðastliðinn laugardag. Flúðaskóli, Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri og Grunnskólinn í Hveragerði sendu allir sveitir til leiks.
Mótið var fjölmennt og sterkt og því þurftu sunnlensku skólarnir að hafa talsvert fyrir því að ná verðlaunasæti. Eftir harða keppni hafði Brekkuskóli á Akureyri sigur í landsbyggðarflokknum en skammt þar á eftir í 2. sæti var A-sveit Flúðaskóla og í 3. sæti A-sveit BES. Þá varð D-sveit BES stigahæsta D-sveitin á mótinu.
Gaman er að geta þess að B-sveit Flúðaskóla var eingöngu skipuð stúlkum og er þetta í fyrsta sinn sem að Flúðaskóli nær þeim áfanga. Stelpurnar stóðu sig mjög vel, náðu í 15 vinninga, aðeins tveimur færri en A-sveitin.
Íslandsmót grunnskólasveita, 8.-10. bekk fór einnig fram um helgina og þar náði Flúðaskóli 2. sætinu og BES varð í 3. sæti hjá landsbyggðarskólunum. Mikil uppsveifla er í skákinni í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri þar sem mikill áhugi er fyrir skák hjá nemendum skólans.