Lindaskóli úr Kópavogi sigraði Skólahreysti 2020 og vann þar með keppnina annað árið í röð. Úrslitakeppnin fór fram í Laugardalshöllinni í kvöld og var æsispennandi allt til enda og lauk Lindaskóli keppni með 43 stig.
Grunnskólinn á Hellu og Flóaskóli voru meðal þeirra átta skóla sem kepptu til úrslita og sunnlensku krakkarnir stóðu sig heldur betur vel. Grunnskólinn á Hellu varð í 5. sæti með 29 stig og Flóaskóli í 6. sæti með 19 stig.
Erlín Katla Hansdóttir úr Flóaskóla, hékk lengst í hreystigreipinni eða í 8,52 mínútur sem er þriðji besti tími sem hefur náðst í keppninni frá upphafi. Hún hefði eflaust getað hangið lengur en var sigurinn í höndunum og lét það nægja.
Goði Gnýr Guðjónsson úr Grunnskólanum á Hellu bar sigur úr býtum í dýfum og tók samtals 59 dýfur eftir rosalega keppni við sterkan keppanda úr Lindaskóla. Goði hafði betur og kreisti fram einni dýfu meira en keppinauturinn.
Íþróttakennararnir Örvar Rafn Hlíðdal í Flóaskóla og Þorsteinn Darri Sigurgeirsson í Grunnskólanum á Hellu fylgdu sínum liðum í úrslitin og geta báðir verið stoltir af nemendum sínum.