Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Anton Sveinn McKee verða fánaberar Íslands á setningarhátíð Ólympíuleikanna í Tókýó á morgun.
ÍSÍ tilkynnti þetta á heimasíðu sinni í morgun en þetta verður í fyrsta skipti sem fánaberar þátttökulandanna eru tveir, ein kona og einn karl.
Snæfríður Sól er Hvergerðingur og æfði með Hamri áður en hún flutti til Danmerkur. Anton Sveinn er ættaður frá Selfossi en móðir hans er Helga Margrét Sveinsdóttir, dóttir Sveins Þórarinssonar og Guðnýjar heitinnar Eyjólfsdóttur á Selfossi.
Íslenski hópurinn, með Anton Svein og Snæfríði Sól í fararbroddi, mun verða fyrstur inn á leikvanginn á eftir gríska hópnum sem alltaf gengur fyrstur inn á leikvanginn á öllum Ólympíuleikum og flóttamannaliði Alþjóðaólympíunefndarinnar. Farið er eftir japanska stafrófinu og þess vegna raðast Ísland fremst þjóða.
Setningarhátíðin hefst kl. 11:00 í fyrramálið að íslenskum tíma og mun RÚV sýna beint frá hátíðinni.