Hafliði Halldórsson, hrossabóndi á Ármóti á Rangárvöllum og liðstjóri íslenska landsliðsins í hestaíþróttum kynnti í gær landsliðshópinn sem keppir á heimsmeistaramótinu í Berlín sem hefst þann 4. ágúst nk.
Fjórir sunnlenskir knapar eru í hópnum auk þess sem Sunnlendingar eiga sína fulltrúa í ungmennaflokki og knapa á kynbótahrossum.
Hinrik Bragason og Smyrill frá Hrísum keppa í tölti og fjórgangi, Viðar Ingólfsson og Hrannar frá Skyggni í fjórgangi og slaktaumatölti og Sigursteinn Sumarliðason og Skuggi frá Hofi keppa í fimmgangi, slaktaumatölti, gæðingaskeiði og 100 og 250 m skeiði. Í sömu greinum keppa Daníel Jónsson og Oliver frá Kvistum.
Einu sæti verður haldið opnu og verður valið í það eftir helgi þegar Íslandsmóti fullorðinna er lokið.
Í kynbótahrossunum sýnir Guðmundur Fr. Björgvinsson Desert frá Litlalandi í flokki 5 vetra stóðhesta og Furu frá Hellu í flokki 6 vetra hryssa. Þá sýnir Þórður Þorgeirsson Gíg frá Brautarholti í flokki 6 vetra stóðhesta og Sigurður Óli Kristinsson sýnir Feyki frá Háholti í flokki 7 vetra og eldri.