Þegar öðrum keppnisdegi í Rally Reykjavík er lokið eru sunnlensku áhafnirnar í 9. og 11. sæti. Tvær af sérleiðum dagsins á Suðurlandi voru felldar út.
Bræðurnir Heimir Snær og Halldór Gunnar Jónssynir á Jeep Cherokee eru í 9. sæti í heildina og í 2. sæti í jeppaflokki. Hörð keppni er í jeppaflokknum en bræðurnir eru aðeins 24 sekúndum frá 1. sætinu. Gangtruflanir hafa hrjáð bíl bræðranna í allan dag en þjónustulið PACTA Rallyteam taldi sig hafa komist fyrir bilunina í þjónustuhléi í kvöld.
Þór Líni Sævarsson og Sigurjón Þór Þrastarson á Subaru Impreza hafa verið að aka vel í dag og náðu þeir besta tímanum á þremur sérleiðum dagsins.
Þeir luku hins vegar ekki keppni á 2. legg keppninnar í morgun þegar felguboltar brotnuðu inni á Hekluleið. Reglurnar í rallinu gefa mönnum kost á að hefja keppni aftur á næsta legg og því óku þeir af stað aftur eftir hádegi en fengu tíu mínútna refsitíma fyrir vikið. Þeir féllu því niður í 11. sæti og erfitt verður fyrir þá að klífa töfluna frekar nema afföll verði á topp tíu.
Tvær af sérleiðum dagsins voru felldar út. Á fyrri ferðinni um Tungnaá var bíll inni á leiðinni sem átti að vera lokuð fyrir almennri umferð og í kvöld var hætt við akstur við Skíðaskálann í Hveradölum vegna óveðurs á Hellisheiði.
Á morgun verða eknar sérleiðir norðan Þingvalla, um Bolabás, Tröllháls og Kaldadal fram og til baka. Keppninni lýkur eftir hádegi á sérleiðum um Kleifarvatn og Djúpavatn.
Þór Líni og Sigurjón eru í 12. sæti eftir að hafa fengið tíu mínútna refsingu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl