Stokkseyri, KFR, Árborg og kvennalið Selfoss töpuðu öll leikjum sínum í Lengjubikarnum í knattspyrnu á föstudag og laugardag.
Stokkseyri og Léttir mættust í C-deildinni á Selfossvelli á föstudagskvöld. Léttir hafði öll völd framan af og leiddi 0-4 í hálfleik. Seinni hálfleikur var ekki alveg jafn fjörugur en Léttir komst í 0-5 áður en Örvar Hugason minnkaði muninn fyrir Stokkseyri á 89. mínútu.
Í sama riðli mættust Árborg og Vatnaliljurnar í Fagralundi. Vatnaliljur skoruðu tvívegis undir lok fyrri hálfleiks og leiddu 2-0 í hálfleik. Tómas Kjartansson minnkaði muninn fyrir Árborg á 61. mínútu en þriðja mark Liljanna leit dagsins ljós skömmu síðar. Magnús Helgi Sigurðsson skoraði sárabótamark fyrir Árborg á 86. mínútu og lokatölur urðu 3-2.
Árborg hafnaði í 3. sæti riðilsins með 7 stig, jafnmörg stig og Stokkseyri sem varð í 4. sæti með lakara markahlutfall.
Í B-deildinni heimsótti KFR Berserki. Berserkir komust í 1-0 á 20. mínútu en Przemyslaw Bielawski og Þormar Elvarsson sáu til þess að KFR leiddi 1-2 í hálfleik. Berserkir jöfnuðu 2-2 í upphafi seinni hálfleiks en Sigurður Benediktsson kom KFR aftur yfir mínútu síðar. Berserkir reyndust hins vegar sterkari á lokakaflanum og náðu að jafna og skora sigurmarkið, 4-3, á síðustu fimm mínútum leiksins. KFR er í 5. sæti riðils-3 í B-deildinni með 3 stig og mætir KFS í lokaumferðinni næstkomandi laugardag.
Kvennalið Selfoss tók á móti ÍBV í A-deildinni. Leikurinn var markalaus allt þar til á 85. mínútu að Natasha Anasi kom ÍBV yfir. Það reyndist eina mark leiksins. Selfoss vann ekki leik í Lengjubikarnum þetta vorið og skoraði aðeins tvö mörk í fimm leikjum. Liðið lauk keppni á botni A-deildarinnar án stiga.