Selfoss og Hamar náðu í mikilvæg stig í 1. deild karla í körfubolta í kvöld en liðin eru að berjast á sitthvorum enda töflunnar.
Selfyssingar unnu annan heimaleik sinn í röð þegar þeir fengu KV í heimsókn í Vallaskóla. Leikurinn var jafn og spennandi og úrslitin réðust ekki fyrr en í framlengingu. Selfoss leiddi 37-34 í hálfleik. Hlutirnir sveifluðust KV í vil á lokamínútunum en Vojtéch Novák jafnaði fyrir Selfoss, 84-84 með tveimur vítaskotum þegar 11 sekúndur voru eftir. Framlengingin var æsispennandi en Selfyssingar voru sterkari og tryggðu sér 96-95 sigur á lokasekúndunni.
Skarphéðinn Árni Þorbergsson var stiga- og framlagshæstur Selfyssinga með 23 stig og þeir Tristan Máni Morthens og Ari Hrannar Bjarmason skoruðu báðir 17 stig.
Hamarsmenn lentu í kröppum dansi gegn Fjölni á útivelli í jöfnum og spennandi leik. Fjölnir leiddi 55-48 í hálfleik og þeir héldu forystunni allan 3. leikhlutann þó að Hamar væri aldrei langt undan. Það var allt í járnum framan af 4. leikhluta en þegar tæpar 4 mínútur voru eftir komst Hamar yfir, 76-77. Hvergerðingar litu ekki í baksýnisspegilinn eftir það og unnu öruggan sigur, 88-92.
Jaeden King var stiga- og framlagshæstur hjá Hamri með 30 stig.
Hamar er í toppsæti deildarinnar með 26 stig en Selfyssingar eru í 11. sæti með 8 stig.
Selfoss-KV 96-95 (24-22, 13-12, 31-25, 16-25, 12-11)
Tölfræði Selfoss: Skarphéðinn Árni Þorbergsson 23/6 stoðsendingar, Tristan Máni Morthens 17/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ari Hrannar Bjarmason 17/4 fráköst, Vojtéch Novák 15/13 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 7/5 fráköst/7 stoðsendingar, Birkir Máni Sigurðarson 6, Halldór Benjamín Halldórsson 5/6 fráköst, Óðinn Freyr Árnason 5, Arnór Bjarki Eyþórsson 1/5 fráköst, Fróði Larsen Bentsson 5 fráköst.
Fjölnir-Hamar 88-92 (30-25, 25-23, 20-22, 13-22)
Tölfræði Hamars: Jaeden King 30/6 fráköst, Fotios Lampropoulos 24/6 fráköst, Jose Medina 17/8 stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson 13/11 fráköst, Lúkas Aron Stefánsson 4/6 fráköst, Birkir Máni Daðason 3, Björn Ásgeir Ásgeirsson 1.