Árborg og Uppsveitir töpuðu leikjum sínum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Árborg og topplið Kríu mættust á Selfossvelli og þurfti Árborg nauðsynlega á sigri að halda til þess að eiga áfram von um sæti í úrslitakeppni 4. deildarinnar.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en hvorugu liðinu tókst að skora. Liðin skiptust á að eiga góða spretti allan leikinn og Árborgarar voru líklegri til að skora í upphafi seinni hálfleiks þegar Kría fékk vítaspyrnu á 62. mínútu eftir að Gabríel Guðmundsson, markvörður Árborgar, braut af sér í teignum. Kría skoraði úr vítinu og síðan aftur tveimur mínútum síðar eftir slæm mistök í vörn Árborgar. Segja má að botninn hafi dottið úr leiknum eftir þetta en Árborgurum tókst að klóra í bakkann með marki Magnúsar Viktorssonar úr vítaspyrnu á 86. mínútu. Við það lifnaði aðeins yfir Árborgurum en þeim tókst ekki að jafna. Lokatölur 1-2.
Uppsveitir heimsóttu Afríku í Egilshöllina í Grafarvogi og varð úr hörkuleikur. Afríka komst yfir á 22. mínútu en Daniel Boca jafnaði fyrir ÍBU á 36. mínútu. Staðan var 1-1 í hálfleik en Afríka komst aftur yfir á 52. mínútu. Staðan var 2-1 allt fram í uppbótartímann að Afríka bætti við þriðja markinu en Guðmundur Karl Eiríksson náði að minnka muninn í 3-2 þegar átta mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Lokatölur 3-2 og þetta var fyrsti sigur Afríku á Íslandsmótinu í sumar.
Árborg er í 4. sæti D-riðils með 14 stig og Uppsveitir eru í 7. sæti A-riðils með 6 stig.