Sunnlensku liðin töpuðu naumlega

Ísak Júlíus Perdue. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Hrunamenn töpuðu bæði leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Selfoss tók á móti ÍA en Hrunamenn heimsóttu Fjölni.

Leikur Selfoss og ÍA var jafn og spennandi lengst af. Selfoss leiddi 40-37 í hálfleik og heimamenn tóku svo frumkvæðið í upphafi seinni hálfleiks. Staðan var 58-50 þegar 4. leikhluti hófst en Skagamenn jöfnuðu 61-61 og eftir það var leikurinn í járnum. Selfyssingar hikstuðu í sókninni á lokamínútunni á meðan ÍA átti skotrétt og nýtti sín vítaskot vel. Lokatölur urðu 72-76. Kennedy Clement var stigahæstur hjá Selfossi með 14 stig og 10 fráköst.

Hrunamenn byrjuðu af miklum krafti gegn Fjölni og leiddu í leikhléi, 31-43. Undir lok 3. leikhluta fór hins vegar að síga á ógæfuhliðina og í upphafi 4. leikhluta jafnaði Fjölnir 74-74 og komst í kjölfarið yfir eftir að hafa gert ótrúlegt 32-7 áhlaup. Staðan var þá orðin 90-77 og fjórar mínútur eftir, sem dugðu Hrunamönnum ekki til að svara fyrir sig. Ahmad Gilbert var að venju atkvæðamestur hjá Hrunamönnum með 23 stig og 13 fráköst á þeim 40 mínútum sem hann spilaði.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss og Hrunamenn eru í 6.-7. sæti með 18 stig en Selfyssingar hafa betur í innbyrðis viðureignum.

Selfoss-ÍA 72-76 (20-22, 20-15, 18-13, 14-26)
Tölfræði Selfoss: Kennedy Clement Aigbogun 14/10 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 13/4 fráköst, Arnaldur Grímsson 12/9 fráköst, Gerald Robinson 12, Birkir Hrafn Eyþórsson 11/9 fráköst, Ísar Freyr Jónasson 8, Sigmar Jóhann Bjarnason 2.

Fjölnir-Hrunamenn 93-85 (18-25, 13-18, 32-27, 30-15)
Tölfræði Hrunamanna: Ahmad Gilbert 23/13 fráköst/5 stoðsendingar, Samuel Burt 18/7 fráköst/5 stolnir, Yngvi Freyr Óskarsson 16/8 fráköst, Eyþór Orri Árnason 13/4 fráköst, Dagur Úlfarsson 8, Friðrik Heiðar Vignisson 4/5 fráköst, Þorkell Jónsson 3.

Fyrri greinUmræða um göngubrú tekin upp á ný
Næsta greinUngmennin lyfta sér upp töfluna