Selfoss og Hrunamenn töpuðu leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Selfyssingar heimsóttu Þrótt Vogum en Hrunamenn mættu Þór á Akureyri.
Þróttarar reyndst sterkari í Vogunum og eftir jafnan 1. leikhluta byggðu þeir jafnt og þétt upp forskot. Staðan í hálfleik var 54-46 og Selfyssingar náðu ekki að ógna að neinu ráði í seinni hálfleik. Að lokum skildu tuttugu stig liðin að, 107-87. Michael Asante var stigahæstur Selfyssingar með 26 stig og 16 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 16 og Tristan Rafn Ottósson 10.
Hlutirnir þróuðust svipað á Akureyri þar sem heimamenn í Þór höfðu undirtökin allan tímann. Staðan í hálfleik var 51-38 og Hrunamenn náðu ekki að svara fyrir sig í seinni hálfleiknum. Lokatölur leiksins urðu 105-83, Þór í vil. Chancellor Calhoun-Hunter skoraði 37 stig fyrir Hrunamenn og Aleksi Liukko skoraði 18 stig og tók 16 fráköst.
Selfyssingar eru í 9. sæti deildarinnar með 4 stig og Hrunamenn í 11. sæti með 2 stig.