Þór Þorlákshöfn mun ekki komast í úrslitakeppni Íslandsmótsins í körfubolta ef eitthvað er að marka spárnar sem birtar voru í gær.
Fyrirliðar, þjálfarar og formenn félaganna í úrvalsdeildinni spá Þór Þorlákshöfn 10. sætinu í deildinni, einu sæti fyrir ofan fallsæti. Því sama spá fjölmiðlamenn sem fjalla um deildina. Stjörnunni og Tindastól er spáð efstu sætunum.
Í 1. deild karla eru forráðamenn liðanna sammála og fjölmiðlamenn sammála um að Hamar verði í 2. sæti fyrir neðan Breiðablik og að Hrunamenn verði í næst neðsta sæti fyrir ofan Snæfell. Útlitið varð ennþá svartara fyrir Hrunamenn síðdegis í gær þegar Snæfell dró lið sitt úr keppni þannig að Hrunamönnum er í raun spáð neðsta sæti.
Forráðamenn liðanna spá Selfyssingum 8. sæti í deildinni en fjölmiðlamenn eru bjartsýnni og setja Selfoss í 6. sætið.
Keppni í úrvalsdeild karla hefst þann 1. október en þá fá Þórsarar Hauka í heimsókn.
Í 1. deildinni hefst keppni þann 2. október og þar er stórleikur strax í fyrstu umferð þegar Hrunamenn taka á móti Selfyssingum. Á sama tíma tekur Hamar á móti Sindra.