Lið 2. flokks Selfoss/Hamars/Ægis/Árborgar gerði 2-2 jafntefli á móti Aftureldingu á N1-vellinum að Varmá í Mosfellsbæ á sunnudag.
“Þó að það svíði hrikalega að hafa ekki klárað þennan leik þá erum við mjög ánægðir með liðið sem sýndi mikla baráttu og dugnað allan leikinn. Við vorum yfir á öllum sviðum fótboltans en náðum ekki að nýta þau færi sem við fengum til þess að klára leikinn. Við fáum á okkur mark úr vítaspyrnu, gegn gangi leiksins, þegar 10 mínútur er eftir. Við komum til baka, jöfnum leikinn og reyndum að ná inn sigurmarki. Því miður hafðist þetta ekki í dag en í heildina erum við stoltir af liðinu fyrir hetjulega baráttu,” sagði Njörður Steinarsson annar af þjálfurum liðsins í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Jafnræði var með liðunum á upphafsmínútum leiksins og reyndu leikmenn að finna taktinn í brakandi veðurblíðunni í Mosfellsbæ. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 15. mínútu og voru heimamenn í Aftureldingu þar að verki. Eftir það tóku Selfyssingar öll völd á vellinum og pressuðu stíft. Það var ekki fyrr en á 37. mínútu að jöfnunarmarkið kom. Þar var að verki Arilíus Óskarsson sem jafnaði leikinn með stórgóðu marki eftir að hafa komist einn inn fyrir vörn heimamanna. Staðan 1-1 í hálfleik.
Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn af sama krafti og fengu fjölmörg tækifæri til þess að komast yfir en ekki vildi boltinn fara yfir línuna.
Það var því gegn gangi leiksins þegar heimamenn fengu vítaspyrnu á 79. mínútu eftir að leikmaður Selfoss fékk boltann í höndina þegar hann var að hreinsa frá marki. Staðan orðin 2-1 og ekki mikið eftir af leiknum. En heimamenn voru ekki lengi í paradís, tveimur mínútum eftir að þeir komust yfir var Arilíus Óskarsson tekinn niður í teignum á hinum enda vallarins og vítaspyrna dæmd. Sindri Pálmason steig á vítalínuna og skoraði af miklu öryggi.
Selfyssingar pressuðu stíft á lokamínútunum og freistuðu þess að ná inn sigurmarki. Það tókst ekki og 2-2 jafntefli niðurstaðan.
Selfoss 2 sigraði sinn leik svo 6-0, þar sem Unnar Magnússon skoraði meðal annars tvö glæsileg aukaspyrnumörk.
Næsti leikur hjá 2. flokki karla í Íslandsmótinu verður á móti Val á Hlíðarenda, fimmtudaginn 18. júní.