Þór tapaði fyrir Njarðvík í kvöld, 101-106, þegar liðin mættust í Domino's-deild karla í körfubolta í Þorlákshöfn. Leikurinn var svakalega spennandi en tvær framlengingar þurfti til að fá úrslit í leikinn.
Gestirnir byrjuðu betur í leiknum og í 1. leikhluta sneru þeir stöðunni úr 13-13 í 15-24 á skammri stund. Þórsarar sneru við dæminu í 2. leikhluta og staðan var jöfn í hálfleik, 39-39.
Seinni hálfleikur var jafn og spennandi og liðin skiptust á um að taka áhlaup. Þór leiddi í lok 3. leikhluta, 64-59, og hélt forystunni allt þar til tæpar þrjár mínútur voru eftir en þá jöfnuðu Njarðvíkingar 76-76.
Lokamínútnar voru rafmagnaðar en Njarðvík komst þremur stigum yfir þegar sjö sekúndur voru eftir, 82-85. Tómas Heiðar Tómasson jafnaði hins vegar metin með svakalegri flautukörfu – þristur í spjaldið og ofaní.
Fyrri framlengingin var jöfn, staðan var 96-96 þegar 30 sekúndur voru eftir en bæði lið brenndu af í síðustu sóknum sínum og því var gripið til annarrar framlengingar.
Þar var jafnt, 101-101, þegar rúm ein og hálf mínúta var eftir en Njarðvíkingar komust yfir 101-103 og Þór missti boltann í kjölfarið og Njarðvíkingar kláruðu síðan leikinn á vítalínunni án þess að Þórsarar næðu að svara fyrir sig.
Mike Cook var stigahæstur hjá Þór með 36 stig og 10 fráköst. Nemanja Sovic skoraði 19 stig og tók 16 fráköst, Tómas Heiðar Tómasson skoraði 15 stig og Ragnar Nathanaelsson skoraði 15 stig og tók 16 fráköst. Þorsteinn og Baldur Ragnarssynir skoruðu báðir 8 stig.
Með sigrinum fór Njarðvík uppfyrir Þór en Þórsarar eru nú í 6. sæti deildarinnar með 6 stig.