Svakalegur sigur í tvíframlengdum leik

Everage Richardson var með þrefalda tvennu í leiknum; 32 stig, 14 fráköst og 11 stoðsendingar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar lenti í kröppum dansi þegar liðið mætti Skallagrími í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Hvergerðingar höfðu þó sigur að lokum í tvíframlengdum leik.

Hamar er harðri toppbaráttu í 1. deildinni en Skallagrímur er neðarlega á töflunni og hefur aðeins unnið þrjá leiki í vetur. Það var þó ekki að sjá á liðunum í upphafi leiks því Skallarnir fóru á kostum og leiddu 30-19 eftir 1. leikhluta. Hamar náði að rétta sinn hlut í 2. leikhluta en heimamenn leiddu í leikhléi, 52-47.

Þriðji leikhlutinn var í járnum en Hamar náði frumkvæðinu á lokamínútunum. Skallagrímur jafnaði 95-95 á lokamínútunni en Hamar náði ekki að nýta síðustu sóknina til sigurs.

Því var gripið til framlengingar og í henni byrjaði Hamar á 9-2 áhlaupi. Skallagrímur skoraði hins vegar síðustu sjö stigin og aftur var jafnt, 104-104.

Í 2. framlengingu sáu Hvergerðingar loksins að hér dygðu engin vettlingatök og þeir spiluðu þessar síðustu fimm mínútur sannfærandi, byrjuðu á 18-2 áhlaupi en Skallagrímur átti síðustu körfu leiksins og lokatölur urðu 109-122.

Hamar er áfram í 2. sæti deildarinnar, nú með 36 stig, tveimur stigum á eftir toppliði Hattar. Skallagrímur er í 7. sæti með 6 stig.

Tölfræði Hamars: Everage Lee Richardson 32/14 fráköst/11 stoðsendingar, Ragnar Jósef Ragnarsson 28/5 fráköst, Michael Maurice Philips 20/15 fráköst, Pálmi Geir Jónsson 17/9 fráköst/7 stoðsendingar, Matej Buovac 16/9 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 9, Styrmir Snær Þrastarson 6 fráköst,Hlynur Snær Wiium Stefánsson 0, Geir Elías Úlfur Helgason 0, Bjarni Rúnar Lárusson 0.

Fyrri greinHamar byrjar vel í Lengjunni
Næsta greinFOSS fer ekki í verkfall