Samstarf knattspyrnuliðanna Selfoss og Brentford sem áður hefur verið greint frá er komið í fullan gang en í lok febrúar fara tveir leikmenn frá Selfossi á reynslu til Brentford.
Þetta eru unglingalandsliðsmennirnir Svavar Berg Jóhannsson og Fjalar Örn Sigurðsson sem munu dvelja hjá Brentford í eina viku.
Óskar Sigurðsson, formaður knattspyrnudeildar Umf. Selfoss, sagði í spjalli við sunnlenska.is að Selfyssingar sjái mikla möguleika í samstarfinu við Brentford og vonast til að það verði hvatning fyrir leikmenn Selfoss og þjálfara.
“Það er okkur mikið ánægjuefni að hið góða starf knattspyrnudeildar Selfoss hafi vakið athygli út fyrir landsteinanna með þessum hætti. Meðal annars munum við aðstoða Brentford við að fylgjast með efnilegum leikmönnum hér á landi og ætti það að vekja áhuga ungra og efnilegra leikmanna að koma og taka þátt í starfinu á Selfossi,” sagði Óskar.