Selfoss tapaði 30-27 í fyrri leiknum gegn Ribnica frá Slóveníu í 2. umferð EHF-bikarsins í handbolta á útivelli í dag.
Selfyssingar byrjuðu vel í leiknum og komust í 2-6 en þá kom afleitur kafli þar sem liðinu gekk ekkert að skora. Slóvenarnir gerðu 10-3 áhlaup og komust yfir, 12-9. Staðan í hálfleik var 17-13.
Í síðari hálfleik fóru hlutirnir að ganga betur hjá Selfossliðinu sem náði að minnka muninn í tvö mörk. Slóvenarnir náðu þó alltaf að svara fyrir sig og sigruðu að lokum með þriggja marka mun.
Árni Steinn Steinþórsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 5, Guðjón Baldur Ómarsson og Einar Sverrisson 4, Haukur Þrastarson 3, Hergeir Grímsson og Atli Ævar Ingólfsson 2 og Pawel Kiepulski 1.
Seinni leikur liðanna verður í Hleðsluhöllinni á Selfossi næstkomandi laugardag kl. 18:00.