Sveiflur á Skaganum

Follie Bogan og Tristan Máni skiluðu góðum tölum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti ÍA í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Eftir sveiflukenndan leik höfðu Skagamenn sigur, 111-99.

ÍA byrjaði betur í leiknum og komst í 15-3 en staðan var 30-18 eftir 1. leikhluta. Forskot heimamanna jókst í 2. leikhluta og þeir voru yfir í hálfleik, 58-42.

Selfoss gerði áhlaup í upphafi seinni hálfleiks og minnkaði muninn í 7 stig en þá tóku Skagamenn aftur völdin. Þeir voru komnir í 88-71 í upphafi 4. leikhluta en þá kom góður kafli hjá Selfyssingum sem minnkuðu muninn í 98-93 þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir. ÍA var hins vegar sterkari aðilinn á lokakaflanum og sigraði 111-99.

Ari Hrannar Bjarmason var stigahæstur Selfyssinga með 24 stig, Follie Bogan skoraði 23 og tók 9 fráköst og Tristan Máni Morthens var framlagshæstur með 22 stig og 7 fráköst.

Eftir ellefu umferðir er ÍA í 4. sæti með 16 stig en Selfoss í 12. og neðsta sæti með 4 stig. Á fimmtudagskvöld heimsótti Hamar Snæfell í Stykkishólm og sigraði 94-111. Tölfræði leiksins er ekki aðgengileg á kki.is en eftir 11 leiki er Hamar í 3. sæti með 16 stig.

ÍA-Selfoss 111-99 (30-18, 28-24, 27-27, 26-30)
Tölfræði Selfoss: Ari Hrannar Bjarmason 24/8 fráköst, Follie Bogan 23/9 fráköst/6 stoðsendingar, Tristan Máni Morthens 22/7 fráköst/5 stoðsendingar, Arnór Bjarki Eyþórsson 10, Svavar Ingi Stefánsson 6, Birkir Máni Sigurðarson 5, Óðinn Freyr Árnason 5, Vojtéch Novák 2, Sigurður Darri Magnússon 2.

Fyrri greinGóður sigur á heimavelli
Næsta greinEkki hægt að hugsa sér jólamáltíðina án klúðurssósunar