Í hófi sem Æskulýðsnefnd Bláskógabyggðar efndi til síðastliðinn laugardag var Sveinbjörn Jóhannesson, frá Heiðarbæ í Þingvallasveit, útnefndur Íþróttamaður Bláskógabyggðar 2015.
Sveinbjörn er fæddur árið 1998 en hefur þegar skapað sér nafn í körfuboltanum. Hann hóf ungur að æfa með Laugdælum og lagði í fyrstu bæði stund á frjálsar íþróttir og körfubolta en árið 2015 snéri hann sér alfarið að körfuboltanum.
Eftir að hann lauk námi við Bláskógaskóla flutti hann á höfuðborgarsvæðið og æfir nú og spilar með Breiðablik í drengjaflokki, unglingaflokki og meistaraflokki. Sveinbjörn hefur verið í byrjunarliði allra flokka og staðið sig vel og verið þessum liðum mikilvægur í vörn og sókn.
Sveinbjörn hefur einnig spilað með yngri landsliðum Íslands allt frá því hann hafði aldur til. Árið 2015 spilaði Sveinbjörn, þá 17 ára, með U18 landsliðinu í körfubolta bæði á NM í Svíþjóð og EM í Austurríki.
Fjórir aðrir íþróttamenn voru einnig tilnefndir, þau Bjarni Bjarnason frá Hestamannafélaginu Trausta, Brynhildur Hrönn Sigurjónsdóttir frá UMF. Bisk., Finnur Jóhannesson frá Hestamannafélaginu Loga og Sigurbjörn Árni Arngrímsson frá UMF. Laugdæla. Auk þess hlutu fjórir aðrir íþróttamenn viðurkenningu fyrir góðan árangur á árinu í íþróttum þau Agnes Erlingsdóttir og Guðmundur Gígjar Sigurbjörnsson úr Laugdælum og Sigurður Sævar Ásberg Sigurjónsson og Ólafur Magni Jónsson frá UMF. Bisk.
Sérstök viðurkenning var veitt kraftlyftingamanninum, Ólafi Aroni Einarssyni frá Geysi fyrir góðan árangur á íþróttasviðinu en hann keppti fyrir Íslands hönd á alþjóðasumarleikum Special Olympics í Los Angeles í júlí og kom heim með tvö bronsverðlaun af leikunum.