Selfyssingar töpuðu fyrir Íslandsmeisturum KR í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. Lokatölur í Frostaskjólinu voru 3-1 eftir hörkuleik þar sem Selfyssingar voru síst lakari aðilinn.
Selfyssingar fengu fyrsta færi leiksins, aukaspyrnu við vítateiginn strax á 2. mínútu en Jón Daði Böðvarsson þrumaði yfir mark KR.
Fyrstu tuttugu mínúturnar var jafnræði með liðunum og fá alvöru færi litu dagsins ljós.
KR-ingar komust svo yfir á 29. mínútu. Moustapha Cissé reyndi þá að hreinsa boltann úr teignum með hjólhestaspyrnu en fór í KR-ing og dómarinn dæmdi vítaspyrnu, þar sem líklega hefði átt að dæma óbeina aukaspyrnu á Selfoss fyrir háskaleik.
Kjartan Finnbogason fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi en Ismet Duracak fór í rétt horn.
Rúmum fimm mínútum síðar spiluðu Selfyssingar laglega inn í vítateiginn og markvörður KR varði skot frá Viðari Kjartanssyni af stuttu færi. Viðari brást ekki bogalistin á 40. mínútu þegar hann fékk boltann frá Jon Andre Royrane á sextán metrunum, sneri á varnarmann KR og skaut hnitmiðuðu skoti í markhornið. 1-1 eftir jafnan fyrri hálfleik.
Leikurinn var í jafnvægi fyrsta korterið í seinni hálfleik og bæði lið áttu ágætar sóknir. KR-ingar komust svo yfir á 59. mínútu með skallamarki eftir hornspyrnu. Eftir markið voru KR-ingar líklegri til að bæta við en sóknarlotur Selfoss voru ekki beittar.
Viðar Kjartansson átti þó frábært skot að marki á 75. mínútu en Hannes Halldórsson, markvörður KR varði með tilþrifum. Tveimur mínútum síðar fengu Selfyssingar vítaspyrnu þegar Viðar féll í teignum. Hann fór sjálfur á punktinn, Hannes fór í vitlaust horn en Viðar setti boltann í stöngina. Frákastið fór á varamanninn Ólaf Finsen sem þrumaði yfir opið markið með sinni fyrstu snertingu í leiknum.
Þar með luku Selfyssingar leik og KR-ingar áttu prýðis færi undir lokin, áður en þeir skoruðu þriðja markið – aftur með skalla eftir hornspyrnu.
Síðasta sprett Selfoss tók Jón Daði Böðvarsson þegar hann þrumaði hárfínt yfir mark KR á 90. mínútu.
Eftir sjö umferðir eru Selfyssingar komnir niður í tíunda sæti deildarinnar með sjö stig. Þeir mæta Fylki í næsta leik, á Selfossvelli á miðvikudaginn, og geta með sigri farið uppfyrir Fylkismenn sem nú sitja í sjöunda sæti deildarinnar.