Selfoss og ÍBV skildu jöfn í þriðja leik sínum á sex dögum en liðin mættust í 1. deild karla í handbolta í kvöld á Selfossi. Eyjamenn náðu að merja jafntefli á lokamínútunni, 25-25.
Selfoss var ekki með í leiknum fyrstu níu mínútur leiksins þar sem Eyjamenn skoruðu fimm mörk án þess að Selfoss næði að svara fyrir sig. Selfyssingar tóku leikhlé og tókst á rúmum tveimur mínútum að breyta stöðunni úr 0-5 í 4-5 en þá kom annar sprettur frá Eyjamönnum sem virtust vera komnir í þægileg mál í stöðunni 5-9.
Selfyssingar gáfust hins vegar ekki upp og Hörður Bjarnarson skoraði tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks úr hægra horninu og jafnaði 12-12 laust áður en hálfleiksflautan gall.
Í byrjun seinni hálfleiks náðu Selfyssingar fjögurra marka forskoti, skoruðu þrjú fyrstu mörk hálfleiksins og virtust til alls líklegir. Eyjamenn hresstu upp á varnarleikinn í kjölfarið og spiluðu frábæra framliggjandi vörn sem Selfossliðið átti í mestu vandræðum með og eini maðurinn sem gat skotið á markið var Hörður Másson – og gerði hann það vel. Helgi Hlynsson volgnaði í markinu og hélt Eyjamönnum í hæfilegri fjarlægð lengst af.
Þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum leiddu Selfyssingar með þremur mörkum, 24-21. Eyjamenn gefast hins vegar aldrei upp og minnkuðu muninn í 25-23 þegar þrjár mínútur voru á klukkunni. Á sama tímapunkti fékk Einar Sverrisson tveggja mínútna brottvísun svo Selfyssingar voru manni færri í tvær af síðustu þremur mínútunum. Það munaði um minna því Selfoss misnotaði þrjár sóknir í röð og Eyjamenn fengu boltann þegar 23 sekúndur voru eftir af leiknum í stöðunni 25-25.
Þeim brást hins vegar bogalistin í lokasókninni þegar leikmaður þeirra skaut framhjá og enn lifðu átta sekúndur á klukkunni. Selfoss tók leikhlé og er ólíklegt að Arnar Gunnarsson hafi lagt upp með það sem fylgdi í kjölfarið. Eyjamenn spiluðu maður á mann og Selfyssingurinn Einar Pétur Pétursson fékk dæmd á sig skref og leikklukkan rann út.
Hörður Másson var markahæstur Selfyssinga en hann var góður í seinni hálfleik þar sem hann tók hverja sleggjuna á fætur annarri utan af velli og þandi netmöskva Eyjamarksins. Hörður skoraði 8 mörk í leiknum en næstur honum kom Sigurður Már Guðmundsson með 5 mörk. Einar Pétur Pétursson sýndi oft á tíðum lipra takta í vinstra horninu og skoraði 4 mörk, Einar Sverrisson skoraði 4/1 mörk, Hörður Bjarnarson 2 og þeir Gunnar Ingi Jónsson og Magnús Már Magnússon skoruðu sitt markið hvor.
Helgi Hlynsson varði 10/1 skot í leiknum og var með 40% markvörslu. Sverrir Andrésson varði 2 skot og var með 16,6% markvörslu.
Selfoss er nú í 4. sæti deildarinnar, síðasta umspilssætinu, með 17 stig en Gróttumenn fylgja þeim eins og skugginn í 5. sætinu.