Árborg lagði Tindastól 1-3 á Sauðárkróki í úrslitakeppni 3. deildar karla í knattspyrnu í kvöld en Tindastóll vann leikina tvo samtals 4-3 og tryggði sér sæti í 2. deild að ári.
Leikurinn var jafn framan af en Tindastóll átti skot í slá og stöng áður en Árborg komst yfir þegar 39 mínútur voru liðnar af leiknum. Guðmundur Ármann Böðvarsson skoraði þá af vítapunktinum eftir að brotið var á Jóni Sigurbergssyni í teignum.
Árborgarar voru þó ekki nógu vakandi á næstu mínútum og Tindastóll jafnaði aðeins þremur mínútum síðar. Hartmann Antonsson kom hinsvegar Árborg í 2-1 á 43. mínútu og þannig stóð í hálfleik eftir þrjú mörk frá liðunum á fimm mínútna kafla.
Árborgarar voru sprækari í upphafi síðari hálfleiks og Guðmundur Ármann skoraði þriðja mark liðsins fljótlega eftir leikhlé. Markið var af dýrari gerðinni en Guðmundur hamraði boltann upp í þaknetið eftir að hafa leikið boltanum inn að markinu hægramegin.
Í þessari stöðu dugði Árborg eitt mark til viðbótar en það lét á sér standa. Liðið átti ágætar sóknir sem strönduðu flestar á síðasta þriðjungnum og föst leikatriði runnu út í sandinn. Stólarnir beittu skyndisóknum og sköpuðu nokkrum sinnum usla en Einar Andri Einarsson, markvörður, var besti maður Árborgar og sá við sóknum Stólanna.
Fögnuður heimamanna var mikill í leikslok en Árborgarar báru höfuðið hátt þrátt fyrir svekkelsi enda var leikur liðsins í kvöld mjög góður.
Árborg mætir KB á laugardaginn í leik um 3. sætið í deildinni en Tindastóll og Dalvík/Reynir hafa tryggt sig upp um deild og leika til úrslita á laugardag.